Stangaveiðifélag Reykjavíkur var stofnað 17. maí árið 1939 og var tilgangur þess til að byrja með að halda utan um leigu á Elliðaánum. Síðan þá hefur félagið vaxið og dafnað í áranna rás og er nú leigutaki af fjölda veiðisvæða um allt land. Raunar er úrvalið svo mikið að enginn einn aðili annar á landinu býður upp á jafn fjölbreytta valkosti eins og SVFR. Félagið býður þó ekki bara veiðileyfi til sölu því í félaginu er öflugt fræðslustarf og í gegnum barna- og unglingastarfið hafa ótal margir veiðimenn stigið sín fyrstu skref í veiðinni.

Tilgangur félagsins er:
Að útvega félagsmönnum veiðileyfi og taka í því skyni veiðivötn á leigu eða kaupa veiðisvæði og annast umboðssölu á veiðileyfum
Að efla hróður stangaveiði með almennri fræðslu um íþróttina, með því að hvetja til hófsemi í veiði og stuðla að því að veiðimenn virði settar veiðireglur og umgangist náttúruna af virðingu og tillitssemi
Að styrkja stöðu stangaveiði sem almennings- og fjölskylduíþróttar
Að efla áhuga barna og unglinga á stangaveiði, m.a. með kennslu í veiðileikni í ám og vötnum og hvers konar fræðslustarfi
Að vinna að samstöðu stangaveiðimanna og standa vörð um rétt þeirra og hagsmuni
Að stuðla að góðri samvinnu við veiðiréttareigendur og standa fyrir, ásamt þeim, umbótum á veiðisvæðum sem félagið hefur til umráða