Almennar upplýsingar

 • Staðsetning: Í Borgarfirði, 72 km frá Reykjavík.
 • Veiðisvæði: Veiðisvæðið er um 8 km langt og nær frá Andakílsárfossum að ofan og niður að ósum árinnar. Í ánni eru 15 merktir veiðistaðir ofan brúar en nokkrir ómerktir veiðistaðir eru neðan hennar þar sem áður var silungasvæði árinnar.
 • Tímabil: 20. júní til 30. september.
 • Veiðileyfi: Stakir dagar frá morgni til kvölds frá 20. júní til og með 4. júlí og aftur frá 2. september og út veiðitímann. Á tímabilinu 5. júlí – 1. september er áin seld í 2ja daga hollum þar sem byrjað og endað er á hádegi en þá er fyrsta og síðasta hollið á því tímabili einn og hálfur dagur. Stangirnar eru seldar saman.
 • Daglegur veiðitími: Kl. 7.00–13.00 og 16.00–22.00 en frá og með 14. ágúst – 15. september kl. 7.00–13.00 og 15.00– 21.00. 15. september og út veiðitímann kl. 7.00–13.00 og 14.00–20.00.
 • Fjöldi stanga: 2
 • Leyfilegt agn: Eingöngu er leyft að veiða á flugu.
 • Vinsælar flugur: Dimmblá, Frances, Gáru-túpur  Green Highlander, Haugur, Silver Sheep og Sunray,
 • Meðalveiði: Um 260 laxar á ári.
 • Kvóti: Leyfilegt er að hirða 2 laxa á stöng á vakt. Skylt er að sleppa öllum laxi 70 cm og stærri.
 • Veitt verður í Andakílsá sumarið 2021! 
Veiðikort

Veiðihús

 • Herbergi: 2 herbergi
 • Svefnpláss: Fyrir 7 manns
 • Vöðlugeymsla:
 • Fjöldi sænga: 7
 • Veiðihúsið sem er notalegt er með heitum potti í hlaðvarpanum, rafmagni og hita. Svefnrými er fyrir 7 manns í tveimur svefnherbergjum. Í öðru herberginu eru fjögur rúmstæði í kojum en í hinu tvíbreitt rúm og rúmstæði yfir því í koju. Í baðherbergi er sturta og við húsið er gasgrill. Það er ekki bakaraofn í húsinu en allur helsti borðbúnaður.Veiðimenn mega koma í húsið einni klukkustund eftir að veiði lýkur, daginn fyrir veiðidag, og skulu rýma það á sama tíma brottfarardag. Þegar seld eru 2ja daga holl frá hádegi til hádegis mega veiðimenn koma í hús klukkustund áður en veiði hefst. Veiðimenn skulu ræsta húsið rækilega fyrir brottför og taka með sér allt rusl. Hægt er að kaupa þrif en upplýsingar um þau eru í veiðihúsi og hjá SVFR. Í húsinu eru sængur og koddar en veiðimenn leggja sjálfir til sængurfatnað, allar hreinlætisvörur og matvæli.Húsið er opið og skulu veiðimenn skilja það eftir opið við brottför. Lyklar hanga inni í húsi óski veiðimenn þess að læsa á meðan þeir eru við veiðar. Fólksbílafært er að húsinu og að flestum stöðum við ána.

Veiðin

Andakílsá hentar  fluguveiðimönnum einstaklega vel. Andakílsá fellur úr Skorradalsvatni um Andakílsárfoss, en neðan hans er veiðisvæðið u.þ.b. 8 kílómetra langt þar sem áin liðast hægt og rólega um sléttlendið niður í Borgarfjörð. Andakílsá er sérlega hentug fyrir fjölskylduna því aðgengi að veiðistöðum er mjög gott.

Andakílsá lætur ekki mikið yfir sér en hún er oftar en ekki full af fiski. Sumarið 2015 veiddust 397 laxar á stangirnar tvær, sem er rúmlega 2 laxar á stöng á dag sem er frábær veiði. Meðalveiði á dagsstöng hefur oftar en ekki verið með þeim betri á landsvísu í Andakílsá.

Kvóti er á veiðinni upp á 2 laxa á stöng á vakt.

Enginn kvóti er á silung en við hvetjum veiðimenn til að sýna hófsemi.

Leyðarlýsing að veiðihúsi

Að Andakílsá eru 72 kílómetrar frá Reykjavík (um Hvalfjarðargöng). Ekið er sem leið liggur þjóðveg 1 í átt til Borgarness. Skömmu áður en ekið er yfir Borgarfjarðarbrúna er beygt til hægri inn Borgarfjarðarbraut (þjóðvegur nr. 50) og hún ekin sem leið liggur 9,2 kílómetra í áttina að Hvanneyri. Strax eftir að ekið hefur verið yfir brúna á Andakílsá er beygt til hægri, inn á Skorradalsveg (þjóðvegur nr. 508) og hann ekinn um einn kílómetra þar til komið er að afleggjara að veiðihúsi á hægri hönd. Ath. merki SVFR er við rimlahlið á afleggjara að veiðihúsi.

Annað

Veiðireglur: Veitt er á tvær stangir í ánni frá 20. júní til og með 30. september. Þar sem stangirnar tvær eru aðeins seldar saman skipta veiðimenn sjálfir með sér veiðisvæðinu. Andakílsá var á árum áður þekkt fyrir stóra fiska og með því að drepa þá síðustu í þessum flokki í ánni er verið að eyða þessum stórlaxagenum.

Skylt er að sleppa öllum laxi 70 cm og stærri. Það er einnig eindregin ósk veiðiréttareigenda að veiðimenn taki hreistursýni af öllum veiddum fiski. Með hreistursýnum fást upplýsingar um uppruna og heimtur úr sleppingum sem veiðifélagið hefur staðið að. Kvóti er tveir laxar á stöng á vakt.